Föstudaginn 15. júní var Langavatn opnað og auðvitað vorum við mætt þar en að þessu sinni fór heimasætan hún Helga Dögg með okkur því að nú ætlaði hún sko að fá fisk, við komum í góðu veðri seinnipartinn á föstudaginn og þegar búið var að slá upp fellihýsinu og koma sér sæmilega fyrir þá var farið í vatnið. Helga og frúin prófuðu maðk en ekkert gekk og þá var tekin fram flugustöngin og Helga fékk flugu á kaststöngina, við tókum öll fisk og það voru vænar bleikjur en sú stærsta 1,5 pund og það var jónfrúarfiskur Helgu Daggar og var hún mjög svo stolt af honum og hafði á orði að þetta ætlaði hún sko að gera aftur. Eftir kvöldmat var haldið áfram og var vatnið mjög gjöfult en það voru nokkrar litlar bleikjur  sem fengu líf en heildar aflinn voru 5 bleikjur þann daginn. Laugardagurinn var fallegur og bjartur og við vöknuðum við álftakvak en það var glæsilegt álftapar á ferð beint undan vögnunum, aftur var farið að munda stangir en ekki urðum við mikið vör nema við smá fiska sem fengu líf en síðan var skellt á eina afmælisköku því að undirritaður átti afmæli þennan dag og ekki hægt að hugsa sér betri félagsskap og umhverfi til að halda uppá hann.  Um kvöldið var frúin að reyna fluguna en þá var orðið ansi hvasst og varð hún að hætta eftir að hafa flækt fluguna á ýmsa staði, en hún tók þá fram kaststöngina og reyndi fyrir sér með maðk og var hann vel þeginn og vel nagaður af og einstaka smáfiskur beit á, en síðan bað hún bóndann að henda út fyrir sig og viti menn kom ekki þessi væna bleikja á land og var það sá síðasti þetta kvöld en það var orðið ansi kalt og vorum við ekki lengi frameftir. Það var gott veður á sunndagsmorgun og aftur mættu álftirnar til að vekja þau okkar sem enn sváfum en einn úr hópnum hafð farið snemma af stað til að nýta morgun kyrrðina og hann var ansi langur göngutúrinn sem hann tók en ekki tók fiskurinn sama hvað hann bauð og þannig var það hjá okkur flestum þennan dag, þegar við svo ákváðum að fara taka okkur saman þá gerði líka þessa úrhellisrigningu sem svo endaði með hagléli en heim fórum við sátt og sæl og það er alltaf jafn gaman að koma að Langavatni og þangað eigum við örugglega eftir að koma aftur í sumar og það er alltaf jafn gaman að fara með ónefnda veiðfélaginu að veiða, reyndar kom heimasætan með tillögu að nafni á félagið og bauðst hún til að hanna lógó fyrir það en tillagan var “ Hið ónefnda íslenska veiðifélag “